föstudagur, febrúar 09, 2007

Vanhugsaðar pælingar í pirringi

Þegar laun kennara, þroskaþjálfa og leikskólakennara eru borin saman kemur í ljós að kennarar eru með lægstu launin.
Það segir í rauninni bara að þroskaþjálfar og leikskólakennarar eru betri í því að semja um launin sín og því verður að hrósa.

Launabarátta kennara virðist endalaus og aðgerðir reglulega í gangi.
Með líka svona góðum árangri.

Nú á að endurskoða laun kennara, viðræður bakvið tjöldin hafa ekki borið árangur.
Svona ein með sjálfri mér, minnug umræðum og vangaveltum í síðustu kjaradeilu árið 2005, hélt ég að nú yrði breytt um áherslur í baráttunni. Litið á hvað hafi ekki gengið upp og hvað hafi gengið upp. Snúa vörn í sókn og skora svona til tilbreytingar.

Ég hef sjaldan á ævi minni verið eins glöð og þegar ég fékk inngöngu í KHÍ. Ég hlakkaði mikið til að fara út í skólana og kenna. Gera eitthvað- vera hluti af því að breyta heiminum.
Svo var ég þrjú ár í Kennó og eldhugsunin fór ofan í tösku hægt og sígandi. Eftir viku í verkfalli var ég komin með nóg. Þegar verkfalli lauk ákvað ég að finna mér eitthvað annað að gera.

Allir hafa skoðun á starfi kennara- óháð því hve mikið þeir vita um kennara og kennslu. Margir telja sig vita að kennarar vinni ekki handtak nema milli 8-14 og séu alltaf í frímínútum.
Ömurlegasti brandari í heimi: þrjár ástæður til að vera kennari, sumarfrí, jólafrí, páskafrí.
Kæri sig einhver um að vita hið rétta getur sá hinn sami kynnt sér allt um starfið og komist að því að kennarar vinna fullan vinnudag og rúmlega það.

Umræðan í verkfallinu var nokkuð um að kennarar mættu bara ekki gera foreldrum þetta að fara í verkfall. Ég veit ekki til þess að nokkur kennari hafi beðið fólk um að eignast barn svo hann geti fyllt upp í bekkjarkvótann. Umræðan var að kennarar áttu að sjá um börnin- gæsla og umönnun meðan foreldrarnir voru í vinnunni.
Ég trúði því alltaf að kennari ætti að kenna og fræða ekki geyma og ala upp. Ég hafði rangt fyrir mér.

Nánast hver sem vildi tjáði sig í fjölmiðlum um ,,frekju og heimtusemi" kennara og hve há laun þeirra væru og vinnutíminn lítill. Þeir áttu ekki betra skilið!

Að skipa blindum manni að sjá er ekki hægt og það er líka erfitt að pissa upp í vindinn.

Kennarar fóru í það að sýna fólki að víst væru þeir á lélegum launum og víst gerðu þeir fullt og í fjölmiðlum heyrðist að kennurum fyndust þeir vanmetnir. Launaseðlar kennara voru birtir á heilsíðuauglýsingum í blöðum. Allir sem lesa blöðin áttu að rjúka til og segja aumingja þeir- aumingja þeir. Greyin fá engin laun.

Það gerðist ekki og almenningsálit fólks á kennurum virtist minnka með hverri mínútunni og hverri auglýsingunni. Áfram hrópuðu kennarar greyið við

Kosturinn var að kennarar ætluðu ekki aftur inn í skólastofuna, þeir vildu leiðréttingu launa sinna. En fengu á sig lögbann. Stétt sem ætlar að ná fram kröfum sínum í verkfalli nær engu fram ef sett er lögbann á stéttina þegar fólk er komið með nóg. Þegar allir eru komnir með nóg er farið að semja. Bananalýðveldi?

Niðurstaðan af verkfallinu 2005 var að mínu mati hörmuleg. Fyrir alla. Kennarar fóru sneyptir inn aftur með lögbann á sér og ljóta samninga. Ríkisstjórnin stóð ekki við orð sín. Foreldrar voru brjálaðir yfir því að geta hvergi geymt börnin og börnin komu í skólana niðurbrotin eftir allt saman, búið að svipta börn fræðslu og bölva kennurunum.

Hópflótti úr skólunum er alltaf sagt. Einn og einn kennari er farinn. Kannski eru bestu kennararnir ekki í skólunum. Það er enn hægt að manna velflestar kennarastöður með réttindakennurum svo flóttinn er ekkert til að tala um. Innan tóm hótun enn einu sinni?

Því var ég að vona að samningaumræðan yrði önnur núna, haldið utan fjölmiðla og utan umræðu almennings.

Læknar eru með margföld laun kennara og vilja hærri laun. Ég hef ekki séð lækna birta launaseðla sína í blöðunum. Þeir vilja hærri laun því þeir telja sig eiga það skilið. Svo má deila um hvort það sé rétt eða ekki.

Alþingismenn eru líklega með minnstu vinnuskyldu af öllum stéttum. Það tekur því varla að setja saman þing áður en því er slitið. Það er ekki einu sinni mætingaskylda þar! Alþingismenn segja að þeir hafi nóg að gera þó þeir séu ekki á þingi hverja stund. Laun alþingismanna eru margföld á við kennara. Kennarar og alþingismenn fylgdust einu sinni að í launum og vinnuskyldu.

Því fannst mér ömurlegt að lesa um það að Kennarasambandið væri að útbúa bækling sem á að dreifa þar sem vinna kennara er útskýrð. Nú eiga allir bara víst að kynna sér hvað kennarar eru duglegir og þeir eiga að fá hærri laun.
Fái ég bæklinginn í hús fer hann líklega beint í ruslið þannig verður það líkast til á fleiri stöðum.

Þessi taktík hefur ekki virkað áður og ég held hún virki ekki heldur núna. Mér finnst að kennarar eigi að hætta þessu rugli, rífa upp um sig brækurnar og breyta laununum. Það gerist ekki með bæklingi og ekki heldur verkfalli.

Hækki laun kennara ekki þannig að þeir eru sáttir eiga þeir að hætta. Orðalaust og fá sér aðra vinnu, allir sem einn. Hætta að skýla sér á bak við það að launin séu ömurleg en það sé svo gaman að kenna því láti þeir þetta yfir sig ganga. Lampahugsjónin á að vera löngudauð.

Auglýsingar, bæklingar og innantómar hótanir gera ekki neitt.