þriðjudagur, desember 21, 2004

Jólageðveikin í hámarki. Hámarki! Það tók ynjuna góðu 25 mínútur að koma sér úr kringlunni heim sem á venjulegum degi tekur fimm mínútur. Allir á bíl, allir að flýta sér, allir að troðast.
Flestir útúrstressaðir að reyna að gera allt klárt á síðustu stundu og eyða um efni fram, láta skapið hlaupa með sig í troðningum og svo framvegis. Því er ynjan enn á ný til í að miðla hugmynd til að komast hjá þessu þjóðarmorði.
Hætta að hafa jólin fyrir alla á sama tíma, en allir fá samt jól. Þannig gætu bankastarfsmenn riðið á vaðið og haldið sín jól í september, opinberir starfsmenn í október, sjómenn í nóvember og svo framvegis. Þá er bara ákveðinn hópur að versla og missa sig meðan hinir bíða rólegir, ekki nándar nærri mikið stress.
Ókosturinn við þessa útfærslu er hvernær? Það má leysa með því að hafa jól alltaf síðustu vikuna í mánuðinum og viðkomandi hópur fær frí þá viku. Gott væri að láta öryrkja byrja hátíðina og þá sem minna mega sín, því þá er enginn búinn að eyða aleigunni í eigin neyslu og gæti létt undir með öðrum. Þannig má líka tryggja að allir haldi gleðileg jól. Verslunin er jöfn og þétt, hvíldartími verslunnarmanna í lagi og umferðin passleg.

Í dag er síðasta nótt ársins, fljótlega fer að birta aftur og tilefni til að fagna því. Strax á hinn verður minna dimmt en það er í dag. Svo kemur janúar og febrúar og í mars getur maður brosað. MMMM bjart. Fátt yndislegra en að hafa bjart lengi lengi lengi.

Jólagjafirnar að mestu frá, tvær og hálf eftir, stefnan er tekin að því að klára innkaupin á morgun. Hef gætt þess vendilega að allar þær gjafir sem ég hef keypt séu mér að skapi. Þannig að ef einhver er ósáttur má sá og hinn sami skila gjöfinni og ég verð alsæl í það minnsta. En það má ekki hugsa svona og hvað þá skrifa.
Laavaga

gleðileg jól